Tuesday, 30 December 2014

Kerfið er ekki gott!

Íslenskt heilbrigðiskerfi er ekki gott. Þá er ég ekki að meina starfsfólkið, heldur kerfið sjálft sem fólkið vinnur í og notar. Maður hefur alla tíð vorkennt aumingja fólkinu í útlöndum að hafa ekki eins gott heilbrigðiskerfi og við á Íslandi. Vesalings fólkið sem má alls ekki fá botnlangakast án þess að verða nánast gjaldþrota vegna kostnaðar. En þannig er þetta er alls ekki. Að minnsta kosti ekki í Danmörku og Englandi þar sem ég hef kynnst kerfinu örlítið síðustu ár.

Í báðum löndum er maður fullgildur meðlimur kerfisins um leið og skráningu er lokið. Það tók u.þ.b. viku í hvoru landi fyrir sig. Eftir það kostar ekkert að leita til læknis, fara í blóðrannsókn, krabbameinsskoðun, röntgenmyndatöku eða nokkra aðra nauðsynlega rannsókn. Þannig er þetta ekki á Íslandi.

Á Íslandi tekur 6 mánuði að fá aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Þegar þar er loks komið, þarf engu að síður að borga fyrir að fara til læknis og fyrir allar rannsóknir. Kannski engar stórfjárhæðir í hvert sinn, en safnast þegar saman kemur!

Lyfjakostnaður er líka lægri í báðum þessum löndum en á Íslandi. Í Danmörku er svipað kerfi og nú er á Íslandi með stighækkandi afslætti eftir því sem samanlagður lyfjakostnaður ársins hækkar. Byrjunarupphæðin er frekar lág í Danmörku, afslátturinn hækkar hratt og maður fylgist með lyfjakostnaðinum og afslættinum á kassakvittuninni frá lyfsalanum. Í Bretlandi virðist vera ein ríkisupphæð á lyfjum. Öll lyf sem við höfum leyst út hafa kostað 8.05 pund eða ca. 1600 íslenskar krónur. Að auki eru ýmis lyf frí s.s. insúlín og önnur slík lyf. Þar fyrir utan er kerfi í gangi fyrir þá sem þurfa oft að leysa út lyf þar sem viðkomandi fær aukinn afslátt og greiðir mánaðarlega fasta upphæð.

Þannig að íslenska heilbrigðiskerfið er að minnsta kosti lakara því breska og danska a.m.k. hvað varðar aðgang og kostnaðarþáttöku notendanna.

Wednesday, 11 December 2013

Spássitúrar

Áðan hjólaði ég framhjá unglingsstrák sem gekk arm í arm við aldna konu. Ekki ólíklegt að þetta hafi verið amma hans. Þar sem þau röltu saman og hún studdi sig við strákinn öðru megin og staf hinum megin áttu þau í hrókasamræðum. Ekki veit ég hvað ollli en allt í einu rifjuðust upp löngu gleymdar minningar um göngutúra með langömmu. Hún kallaði þá reyndar spássitúra.

Langamma bjó hjá ömmu og afa í Ásgarðinum þar sem ég var oft sem krakki að „hjálpa“ ömmu. Stundum var ég beðin um að fara út að spássera með langömmu. Ég veit ekki hvort langamma hafði einhvern áhuga á göngutúrunum eða hvort það var bara verið að koma krakkanum útúr húsi. Kannski svolítið af hvoru tveggja.

Þegar við fórum í þessa spássitúra þá gengum við yfirleitt uppúr Ásgarðinum, uppá hitaveitustokkinn og síðan eftir honum í áttina að Elliðaánum. Stundum gengum við alveg niður í Elliðaárdal en oftast beygðum við útaf stokknum og fórum Sogaveg, Langagerði eða Litlagerði og síðan Grensásveg til baka. Amma rölti í rólegheitum við stafinn sinn og við spjölluðum um heima og geima.

Það var mikið sport að ganga eftir hitaveitustokknum. En svo kom að því að langamma vildi ekki ganga eftir hitaveitustokknum. Stokkurinn var kúptur að ofan og svolítið hærri en umhverfið og hún sagðist finna fyrir svima. Þetta fannst krakkaskottinu mér bara fjarstæðukennt og hlægilegt og þverneitaði að ganga ekki eftir stokknum! Amma, komin eitthvað á níræðisaldur, paufaðist því í karganum meðfram stokknum meðan ég skottaðist ofaná honum hlæjandi að henni! Eitthvað rámar mig í að hún hafi í þetta skiptið viljað fara mun styttra en ég, aldrei þessu vant. Síðustu göngutúrarnir okkar langömmu voru farnir eftir gangstéttum í Ásgarðinum og þar í kring en mér fannst ekkert varið í þá göngutúra.

Það verður að segjast, að mér blöskrar óvitaskapurinn í krakkanum sem hló að ömmu sinni og lét hana paufast um í karganum á spássitúrunum þeirra. En amma var skemmtileg kona sem ég minnist alltaf með hlýju og hún lét sig hafa ýmislegt frá okkur barna-barna-börnunum sínum.

Sunday, 23 December 2012

Jólakort frá útlöndum


Heil og sæl kæru vinir og kunningar. 

Siðasta ár hefur verið verulega viðburðaríkt hjá okkur hjónunum. Sigga bauðst vinna í London og flutti þangað í mai. Ég lauk BSc prófi í tæknifræði og ávað að halda áfram námi og reyna við masterinn. Verðmiðinn á náminu réði því að ég lenti í Danmörku þannig að við hjónin höfum verið í fjarbúð meira og minna síðan í maí en hittumst svona u.þ.b. einu sinni í mánuði.

Þegar leið að jólum kom í ljós að Siggi þarf að vinna alla daga í kringum hátíðar svo það var ekki í boði að taka frí og heimsækja Ísland. Jólin höldum við þvi tvö saman hér í London og hugsum hlýtt til fjölskyldunnar okkar, ekki síst barnanna okkar og þeirra fjölskyldna. 

Við erum búin að kaupa hamborgarhrygginn og ýmislegt fleira góðgæti, nokkrir pakkar eru komnir í hús og einhverjir eiga eftir að bætast við. Það mun því ekki væsa um okkur þó auðvitað verði þetta mikil viðbrigði og við komum til með að sakna þess jafnvel meira en venjulega að geta ekki hitt fjölskylduna okkar.

Til þeirra sem vanir eru að fá jólakort frá okkur: Einhvern vegin urðu jólakortin útundan þetta árið. Svona mitt á milli þess að reyna að ljúka prófum og undirbúa för frá Danmörku til London, gleymdust þau hreinlega! Ég er reyndar búin að kaupa gasalega fín kort en þau urðu þau eftir í Danmörku þannig að það er ekki heldur hægt að gera úr þeim áramótakort. Það er því spurning hvort við gerum úr þeim páskakort, sendum 2 kort um næstu jól eða spörum okkur kortakaup á næsta ári og notum bara þessi?

En til ykkar allra: Bestu jólakveðjur til ykkar allra með von um að þið hafið það sem allra best og gleðilegt nýtt ár!
Þessi rós sem rembist við að blómstra hér utan við dyrnar hjá okkur á Þorláksmessu er gott dæmi um breyttar aðstæður hjá okkur þessi jól.

Thursday, 25 October 2012

Uppskrift að sjónvarpssokkum

Fyrir nokkru datt mér í hug að prófa að prjóna sjónvarpssokka eins og ég man að langamma mín prjónaði þegar ég var lítil. Ég hef ekki séð svona sokka í mörg, mörg ár en þeir eru rótsniðugir svona uppí sófa þegar maður er að horfa á sjónvarpið eða að lufsast um heima hjá sér í rólegheitum.

Eftir að við Siggi fluttum út kom í ljós bráð þörf fyrir svona sokka. Húsakostur og kyndin er örlítið öðru vísi en við erum vön og gólfkuldi alþekkt fyrirbæri. Ég er því búin að hafa það af að prjóna 2 pör af svona sokkum og er bara nokkuð sátt með sjálfa mig! Um daginn fékk ég svo fyrirspurn um uppskriftina svo ég tók mig til og setti mína útgáfu niður á blað. Ég studdist við uppskrift sem ég fann á netinu en fannst hún svolítið ruglingsleg og svo er ég ekki heldur neitt voðalega dugleg að fara eftir uppskriftum. :)

Hér kemur svo uppskriftin:

Sjónvarpssokkar


Uppskriftin er byggð á uppskrift frá Ístex (www.istex.is)

Sokkarnir eru úr Léttlopa og prjónaðir á prjóna nr. 6, þá verða sokkarnir frekar grófir.
Fitja upp 60 lykkjur, þá ná sokkarnir ca. upp á miðjan legg.  Ef fitjað er upp 80 lykkjur verða þeir vel háir.
Prjóna 4 umf. slétt prjón (1 pr slétt, 2 pr brugðið). Í annari hverri umferð er á enda prjóns (þeim megin sem keðjulykkjan er ekki) aukið út um 1 lykkju 3 sinnum. Þegar 4 umferðir eru búnar er prjónað garðaprjón (slétt í báðar áttir). Þá er gott að skipta um lit og prjóna 2-3 rendur (eða eins margar og manni sýnist) með öðrum lit. Skipt er um lit þeim megin sem aukið var út.

Fyrsta lykkja er alltaf tekin óprjónuð fram af prjóninum. Þeim megin sem byrjað var að fitja upp er lykkjan tekin fram af með bandið framan við lykkjuna, þá myndast keðjulykkja á efri brún sokksins. Hinum megin er lykkjan tekin fram af eins og ætti að prjóna hana.

Þegar búið er að prjóna nógu langt er endað með eins röndum og í upphafi og endað á að prjóna jafn stóran sléttan kafla og í upphafi. Muna að taka úr 3 lykkjur eins og aukið var út í byrjun. Geymið lykkjurnar á prjóni eða setjið þær á band.

Saumið saman sokkinn á tánni frá réttu þannig að rendurnar passi saman. (Mér finnst þægilegast að fela endana áður en ég sauma sokkinn saman.) Dragið síðan afganginn af tánni saman með því að þræða í gegnum jaðarinn og festa. Sokkurinn er síðan lykkjaður saman að framan.

Ístex mælti með því að prjóna sokkinn saman (hef ekki prjófað það) þannig: Snúa röngunni út og prjóna sokkinn saman: Prjóna sl. Í 1. L á prj samtímis og prj er í 1. L uppfitjunarinnar, þarnæst í 2. L bæði á prj og uppfitjun og fella af á vanalegan hátt. Þetta er gert út allan prjóninn.

Viðbót: Nú er ég búin að gera prufu með að prjóna sokkana saman eins og uppskriftin frá Ístex segir til um. Það er alveg ágæt aðferð en það er mun fallegra að lykkja þá saman og verður ekki stíft á samskeytunum.

Saturday, 22 September 2012

Fara eða vera?

Í dag skrapp ég í "Kringluna" í Lyngby. Þar villtist ég fram og aftur um gangana og alveg pakkað af fólki svona svipað og stuttu fyrir jól heima á Íslandi. Kannski af því það er lokað flesta sunnudaga? Ég sá margt fallegt og bráðnauðsynlegt sem mann vantar ekki neitt eins og tildæmis alveg hrúgu af fallegum skóm í Bianco. Sá líka buxur úr flaueli í einni gellubúðinni. Er flauel að koma aftur? Ég fór til að kaupa buxur sem ég fann ekki en tókst samt að eyða góðum slatta af peningum.

Búin að kaupa mér rosa flottan síma sem ég get ekki ennþá notað hann af því mig vantar í hann sim kort. Fékk í morgun kort frá símafyrirtækinu en þeir afgreiddu mig vitlaust og sendu mér venjulegt kort en ekki micro-sim eins og ég pantaði þannig að nú þarf ég að fá þá til að senda mér nýtt án þess að rukka mig aftur. Gaman að sjá hvernig það fer.

Helstu pælingarnar okkar Sigga þessa dagana eru hvort ég á að fara til London í október eða hann að koma til mín? Mig vantar að fá hann hingað til að setja upp og stilla router og hann þarf náttúrulega líka að sjá hvernig ég bý. Ég fæ hins vegar viku frí í skólanum í október þannig að ég gæti farið þangað í rúma viku. Hins vegar stefnir allt í að það verði slatti af verkefnum sem ég þarf að vinna í fríinu svo kannski er ekkert sniðugt að fara neitt. Verst að við getum ekki bara gert hvort tveggja en flugfélögin passa mjög vel að ódýru fargjöldin eru ekki boði í kringum helgar þegar líklegt er að maður geti nýtt þau.
Kirkjan í Lyngby þar sem ég fer úr strætó þegar ég fer í  miðbæinn (ef ég hjóla ekki)

Saturday, 15 September 2012

Villingurinn

Ég er skelfilegur villingur.

Eftir að ég kom hingað til Danmerkur hef ég villst um allt! Ég hef tekið strætó í öfuga átt og reddað mér með því að fara í heilan hring með honum. Hefði gert það líka á fyrsta degi í skóla ef það hefðu ekki verið fleiri úr húsinu að fara sömu leið og ég.

Ég hef staðið vegalaus úti á götu og ekki haft hugmynd um hvert ég átti að fara og þurft að hringja og láta lóðsa mig á réttan stað.

Eftir að ég fékk mér reiðhjól - alvöru damecyckel - og fór að hjóla í skólann tókst mér að fara fyrstu 3 ferðirnar milli skóla og heimilis ranga leið. Mér tókst nú samt alltaf að enda á réttum stað! Þetta varð reyndar líka til þess að ég vissi hvar pósthúsið er þegar ég þurfti svo að fara þangað nokkrum dögum seinna.

Nú er ég búin að panta mér nýjan síma sem er með gps og kortum í svo ég geti fundið réttu leiðina næst þegar ég gerist villingur! :)

Fína hjólið mitt sem kemur mér á milli staða - stundum reyndar lengri leiðina :P


Danskar marvöruverslanir


Danskar matvöruverslanir eru mjög sérstakar.

Það er ekkert verið að spá í skipulag í mörgm verslunum. Ekki er ólíklegt að rekast á sams konar vörur á tveimur mismunandi stöðum í versluninni. Vörunum getur líka allt eins verið hrúgað í körfur eða hillur þar sem kúnninn á að finna þær.

Vöruúrvalið er líka einkennilegt. Við fyrstu sýn virðast Danir helteknir af hollustu. Brauðmeti er yfirleitt mjög gróft, lítið og lélegt úrval er af morgunkorni (líka hollu) og allt sem er sætt er rándýrt (sykurskattur). Svo gengur maður aðeins lengra inn og þá er hálf verslunin full af áfengi á spottprís! Það er t.d. ekki óalgengt að ½ ltr af gosi jafnvel meira en tvöfalt dýrari en bjórinn og vatnið er líka dýrara en bjórinn – sem þó er búinn til úr vatni! Veit ekki hver hollustan er í því að borða gróft brauð og skola því svo niður með öli. Og 1/2 ltr af gosi kostar 20-25dkr sem eru ca. 4-500 íslenskar krónur!

Ég hef ákveðnar efasemdir með umhverfismerktu vörurnar í búðunum. Ég keypti t.d. egg sem eiga að vera úr hænum sem ganga frjálsar (free range). Skurnið á harðsoðnu eggi var svo pikkfast á að eggið fór meira og minna í tætlur. Þegar skurnið var loks farið af kom í ljós að rauðan (gulan?) var fölari en nokkur eggjarauða sem ég hef á æfinni séð og vita bragðlaus! Hænurnar sem verptu þessum eggjum hafa alveg áreiðanlega aldrei komist í tæri við ferskan arfa eða nokkuð annað ferskt.