Tuesday, 30 December 2014

Kerfið er ekki gott!

Íslenskt heilbrigðiskerfi er ekki gott. Þá er ég ekki að meina starfsfólkið, heldur kerfið sjálft sem fólkið vinnur í og notar. Maður hefur alla tíð vorkennt aumingja fólkinu í útlöndum að hafa ekki eins gott heilbrigðiskerfi og við á Íslandi. Vesalings fólkið sem má alls ekki fá botnlangakast án þess að verða nánast gjaldþrota vegna kostnaðar. En þannig er þetta er alls ekki. Að minnsta kosti ekki í Danmörku og Englandi þar sem ég hef kynnst kerfinu örlítið síðustu ár.

Í báðum löndum er maður fullgildur meðlimur kerfisins um leið og skráningu er lokið. Það tók u.þ.b. viku í hvoru landi fyrir sig. Eftir það kostar ekkert að leita til læknis, fara í blóðrannsókn, krabbameinsskoðun, röntgenmyndatöku eða nokkra aðra nauðsynlega rannsókn. Þannig er þetta ekki á Íslandi.

Á Íslandi tekur 6 mánuði að fá aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Þegar þar er loks komið, þarf engu að síður að borga fyrir að fara til læknis og fyrir allar rannsóknir. Kannski engar stórfjárhæðir í hvert sinn, en safnast þegar saman kemur!

Lyfjakostnaður er líka lægri í báðum þessum löndum en á Íslandi. Í Danmörku er svipað kerfi og nú er á Íslandi með stighækkandi afslætti eftir því sem samanlagður lyfjakostnaður ársins hækkar. Byrjunarupphæðin er frekar lág í Danmörku, afslátturinn hækkar hratt og maður fylgist með lyfjakostnaðinum og afslættinum á kassakvittuninni frá lyfsalanum. Í Bretlandi virðist vera ein ríkisupphæð á lyfjum. Öll lyf sem við höfum leyst út hafa kostað 8.05 pund eða ca. 1600 íslenskar krónur. Að auki eru ýmis lyf frí s.s. insúlín og önnur slík lyf. Þar fyrir utan er kerfi í gangi fyrir þá sem þurfa oft að leysa út lyf þar sem viðkomandi fær aukinn afslátt og greiðir mánaðarlega fasta upphæð.

Þannig að íslenska heilbrigðiskerfið er að minnsta kosti lakara því breska og danska a.m.k. hvað varðar aðgang og kostnaðarþáttöku notendanna.

No comments:

Post a Comment