Wednesday, 11 December 2013

Spássitúrar

Áðan hjólaði ég framhjá unglingsstrák sem gekk arm í arm við aldna konu. Ekki ólíklegt að þetta hafi verið amma hans. Þar sem þau röltu saman og hún studdi sig við strákinn öðru megin og staf hinum megin áttu þau í hrókasamræðum. Ekki veit ég hvað ollli en allt í einu rifjuðust upp löngu gleymdar minningar um göngutúra með langömmu. Hún kallaði þá reyndar spássitúra.

Langamma bjó hjá ömmu og afa í Ásgarðinum þar sem ég var oft sem krakki að „hjálpa“ ömmu. Stundum var ég beðin um að fara út að spássera með langömmu. Ég veit ekki hvort langamma hafði einhvern áhuga á göngutúrunum eða hvort það var bara verið að koma krakkanum útúr húsi. Kannski svolítið af hvoru tveggja.

Þegar við fórum í þessa spássitúra þá gengum við yfirleitt uppúr Ásgarðinum, uppá hitaveitustokkinn og síðan eftir honum í áttina að Elliðaánum. Stundum gengum við alveg niður í Elliðaárdal en oftast beygðum við útaf stokknum og fórum Sogaveg, Langagerði eða Litlagerði og síðan Grensásveg til baka. Amma rölti í rólegheitum við stafinn sinn og við spjölluðum um heima og geima.

Það var mikið sport að ganga eftir hitaveitustokknum. En svo kom að því að langamma vildi ekki ganga eftir hitaveitustokknum. Stokkurinn var kúptur að ofan og svolítið hærri en umhverfið og hún sagðist finna fyrir svima. Þetta fannst krakkaskottinu mér bara fjarstæðukennt og hlægilegt og þverneitaði að ganga ekki eftir stokknum! Amma, komin eitthvað á níræðisaldur, paufaðist því í karganum meðfram stokknum meðan ég skottaðist ofaná honum hlæjandi að henni! Eitthvað rámar mig í að hún hafi í þetta skiptið viljað fara mun styttra en ég, aldrei þessu vant. Síðustu göngutúrarnir okkar langömmu voru farnir eftir gangstéttum í Ásgarðinum og þar í kring en mér fannst ekkert varið í þá göngutúra.

Það verður að segjast, að mér blöskrar óvitaskapurinn í krakkanum sem hló að ömmu sinni og lét hana paufast um í karganum á spássitúrunum þeirra. En amma var skemmtileg kona sem ég minnist alltaf með hlýju og hún lét sig hafa ýmislegt frá okkur barna-barna-börnunum sínum.

No comments:

Post a Comment