Thursday, 25 October 2012

Uppskrift að sjónvarpssokkum

Fyrir nokkru datt mér í hug að prófa að prjóna sjónvarpssokka eins og ég man að langamma mín prjónaði þegar ég var lítil. Ég hef ekki séð svona sokka í mörg, mörg ár en þeir eru rótsniðugir svona uppí sófa þegar maður er að horfa á sjónvarpið eða að lufsast um heima hjá sér í rólegheitum.

Eftir að við Siggi fluttum út kom í ljós bráð þörf fyrir svona sokka. Húsakostur og kyndin er örlítið öðru vísi en við erum vön og gólfkuldi alþekkt fyrirbæri. Ég er því búin að hafa það af að prjóna 2 pör af svona sokkum og er bara nokkuð sátt með sjálfa mig! Um daginn fékk ég svo fyrirspurn um uppskriftina svo ég tók mig til og setti mína útgáfu niður á blað. Ég studdist við uppskrift sem ég fann á netinu en fannst hún svolítið ruglingsleg og svo er ég ekki heldur neitt voðalega dugleg að fara eftir uppskriftum. :)

Hér kemur svo uppskriftin:

Sjónvarpssokkar


Uppskriftin er byggð á uppskrift frá Ístex (www.istex.is)

Sokkarnir eru úr Léttlopa og prjónaðir á prjóna nr. 6, þá verða sokkarnir frekar grófir.
Fitja upp 60 lykkjur, þá ná sokkarnir ca. upp á miðjan legg.  Ef fitjað er upp 80 lykkjur verða þeir vel háir.
Prjóna 4 umf. slétt prjón (1 pr slétt, 2 pr brugðið). Í annari hverri umferð er á enda prjóns (þeim megin sem keðjulykkjan er ekki) aukið út um 1 lykkju 3 sinnum. Þegar 4 umferðir eru búnar er prjónað garðaprjón (slétt í báðar áttir). Þá er gott að skipta um lit og prjóna 2-3 rendur (eða eins margar og manni sýnist) með öðrum lit. Skipt er um lit þeim megin sem aukið var út.

Fyrsta lykkja er alltaf tekin óprjónuð fram af prjóninum. Þeim megin sem byrjað var að fitja upp er lykkjan tekin fram af með bandið framan við lykkjuna, þá myndast keðjulykkja á efri brún sokksins. Hinum megin er lykkjan tekin fram af eins og ætti að prjóna hana.

Þegar búið er að prjóna nógu langt er endað með eins röndum og í upphafi og endað á að prjóna jafn stóran sléttan kafla og í upphafi. Muna að taka úr 3 lykkjur eins og aukið var út í byrjun. Geymið lykkjurnar á prjóni eða setjið þær á band.

Saumið saman sokkinn á tánni frá réttu þannig að rendurnar passi saman. (Mér finnst þægilegast að fela endana áður en ég sauma sokkinn saman.) Dragið síðan afganginn af tánni saman með því að þræða í gegnum jaðarinn og festa. Sokkurinn er síðan lykkjaður saman að framan.

Ístex mælti með því að prjóna sokkinn saman (hef ekki prjófað það) þannig: Snúa röngunni út og prjóna sokkinn saman: Prjóna sl. Í 1. L á prj samtímis og prj er í 1. L uppfitjunarinnar, þarnæst í 2. L bæði á prj og uppfitjun og fella af á vanalegan hátt. Þetta er gert út allan prjóninn.

Viðbót: Nú er ég búin að gera prufu með að prjóna sokkana saman eins og uppskriftin frá Ístex segir til um. Það er alveg ágæt aðferð en það er mun fallegra að lykkja þá saman og verður ekki stíft á samskeytunum.

2 comments:

  1. Ef ég vill gera svona ungbarnasokka, hvað fitja ég þá upp á margar lykkjur?
    kv Drífa

    ReplyDelete
  2. Það er alveg ómögulegt að segja! Best að mæla hvað fóturinn er langur + hvað þú vilt láta sokkana ná hátt upp og gera svo prjónafestuprufu.

    ReplyDelete