Nú eru komnar 3 vikur í Danmörku og ég er ekki frá því að
mér finnist fleira skrýtið hér en í Bretlandi.
- Hér er unnið frá 9 til 5. Ekki orð um það meir. Ef eitthvað bilar utan þess tíma eða um helgar þá verður bara að hafa það.
- Skrifræðið er ótrúlegt. Mér gekk ágætlega að fá kennitölu og um leið og hún var komin þá hrúgaðist inn hjá mér póstur um hitt og þetta sem ég á að gera fyrir batteríið eða batteríið gerir fyrir mig. Ég er líka búin að vera í 2 vikur að stofna bankareikning. Vona að það hafist eftir helgi.
- Á Íslandi er ekki borin virðing fyrir hjólreiðafólki. Hér er borin mikil virðing fyrir því en gangandi fólk virðist helst eiga að halda sig heima við. Ekki óalgengt að við hliðina á götu og hjólastíg sé örmjór malarstígur sem helst minnir á kindagötu. Það virðist nóg handa gangandi fólki.
- Verðlag hér er eins og í London, alveg það sama og heima. Hef enn ekki rekist á neitt sem er ódýrara hérna. Allt sem inniheldur sykur er hins vegar óheyrilega dýrt!
- Matvöruverslanir hér eru sér kapítuli. Held ég hafi sér pistil um þær.
- Reglur eru reglur og það á að fara eftir þeim! Galtóm gata með engri umferð er vís með að hafa hóp af fólki uppi á gangstétt að bíða eftir græna kallinum.
- Götur eru tómar eftir vinnutíma. Fólk virðist fara heim og halda sig þar. Ég hef hjólað heim eftir stofnæð um 18:30 og umferðin var svipuð og maður býst við í íbúðagötu snemma á sunnudagsmorgni.
- Danir flokka ekki rusl og hvergi örlar á hvatningu til þess.
Inngangurinn heima hjá mér á Viggo Jarls vej í Virum. |
No comments:
Post a Comment